154. löggjafarþing — 99. fundur,  19. apr. 2024.

fjármálaáætlun fyrir árin 2025--2029.

1035. mál
[10:32]
Horfa

innviðaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Í fjármálaáætlun hverju sinni birtast áherslur í hagstjórn og stefnumörkun í opinberum fjármálum ásamt stefnumótun á öllum málefnasviðum hins opinbera til fimm ára. Eins og undanfarin ár er lagt upp með það markmið að útgjöld vaxi hóflega á tímabili áætlunarinnar. Þannig sköpum við skilyrði til áframhaldandi lækkunar verðbólgu. Undir innviðaráðuneyti heyra sveitarfélög og byggðamál, samgöngumál og húsnæðis- og skipulagsmál ásamt þjóðskrá. Ber ráðuneytið samtals ábyrgð á rúmlega 600 milljarða kr. fjárheimildum á tímabili áætlunarinnar. Sameiginleg framtíðarsýn þeirra málefnasviða sem heyra undir ráðuneytið eru m.a. að Ísland verði í fremstu röð með trausta og örugga innviði, öflug sveitarfélög og framsækna þjónustu.

Fjárfesting í samgöngum er fjárfesting í samfélaginu. Góðir samgönguinnviðir hafa víðtæk áhrif, sum mælanleg eins og fækkun slysa og stytting ferðatíma. Annað er erfiðara að greina eins og efling vinnu-, skóla- og þjónustusóknarsvæða og bætt búsetuskilyrði, vissan fyrir því að komast leiðar sinnar árið um kring. Þá eru framkvæmdir á vegum og bætt þjónusta líkleg til að hafa jákvæð áhrif á jafnrétti kynjanna. Efling fjölbreyttra ferðamáta stuðlar að auknu jafnrétti en konur og börn ferðast að öllu jöfnu styttri vegalengdir og gæta þarf þess við forgangsröðun samgönguverkefna. Huga verður að bættu aðgengi fyrir alla hópa samfélagsins til að komast leiðar sinnar jafnt er varðar byggingu mannvirkja, samgöngumála og fleiri þátta.

Ein stærsta áskorun samtímans eru loftslagsbreytingar af manna völdum. — Forseti. Er þetta ekki einhver skekkja í klukku? Eða fannst forseta bara komið nóg?

(Forseti (BÁ): Forseti mun fylgjast með tímanum og gefa ráðherra til kynna þegar styttist í endalok ræðutíma. )

Aðgerðir til að draga úr losun skiptast gróflega í tvö meginstef, orkuskipti og breyttar ferðavenjur. Mikil gerjun er í orkuskiptum og stöðugt er unnið í að ná meiri árangri. Stærsta framlag til breyttra ferðavenja er samgöngusáttmálinn á höfuðborgarsvæðinu en gert er ráð fyrir að framlög verði aukin verulega eða sem nemur 20 milljörðum kr. á tímabili áætlunarinnar. Uppbygging samgöngusáttmála felur í sér mikinn ávinning, bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og landið allt. Tilkoma Borgarlínu og öflugir innviðir fyrir virka ferðamáta gera almenningi kleift að breyta ferðavenjum. Þá er komið í veg fyrir auknar tafir og slys í umferðinni. Fleiri valkostir fela einnig í sér tækifæri fyrir heimili til að draga úr útgjöldum vegna samgangna.

Herra forseti. Álag á vegakerfi landsins hefur vaxið á undanförnum árum, einkum vegna mikils vaxtar í ferðaþjónustu en einnig vegna aukinna þungaflutninga á vegum frá útflutningsgreinum, m.a. í fiskeldi. Við þessu er brugðist með aukinni fjárfestingu í nýframkvæmdum og viðhaldi vega ásamt því að auka framlög til vetrarþjónustu sem er sífellt mikilvægari þáttur í rekstri vegakerfisins.

Framlög til málefnasviðs 31, húsnæðis- og skipulagsmála, nema um 119 milljörðum kr. á tímabili áætlunarinnar. Öryggi í húsnæðismálum er grundvallaratriði fyrir velsæld fólks en kostnaður við húsnæði er oftast stærsti útgjaldaliður heimila. Þau sem verða fyrir áhrifum af aðgerðum málaflokksins eru einkum efnaminna fólk. Viðtakendur húsnæðisbóta og hlutdeildarlána eru að meiri hluta barnlaus heimili en einnig einstæðir foreldrar. Hlutfall kvenna og karla í hópi barnlausra er nokkuð jafnt í báðum húsnæðisstuðningskerfum en þegar litið er til einstæðra foreldra eru konur í miklum meiri hluta. Einstæðar mæður eru enn fremur líklegri til að vera á leigumarkaði en í eigin húsnæði. Ljóst er að húsnæðisbætur og hlutdeildarlán nýtast ekki síst þeim hópum. Sem hluti af aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings langtímakjarasamningum á vinnumarkaði verður stuðlað að auknu framboði íbúðarhúsnæðis og fjölgun hagkvæmra íbúða í almenna íbúðakerfinu. Lögð er sérstök áhersla á að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða því að stuðla að lækkun verðbólgu og vaxta sem við getum öll sameinast um að stefna að og skiptir höfuðmáli fyrir velsæld heimila landsins. Þannig munu framlög til stofnframlaga nema um 32 milljörðum kr. á tímabilinu en með þeim skapast grundvöllur fyrir öruggt húsnæði í samræmi við greiðslugetu leigjenda og er að jafnaði ekki hærra en 25% af tekjum. Þá verður húsnæðisbótakerfið styrkt. Grunnfjárhæðir húsnæðisbóta og eignaskerðingarmörk í húsnæðisbótakerfinu hækka 1. júní 2024. Auk þess sem aukið tillit verður tekið til fjölskyldustærðar. Munu framlög til húsnæðisbóta aukast um 2,5 milljarða kr. á ársgrundvelli vegna þessa. Þessu til viðbótar eru til umfjöllunar í velferðarnefnd húsaleigulög sem auka fyrirsjáanleika og stöðugleika á leigumarkaði. Hluti af aðgerðum stjórnvalda til stuðnings langtímakjarasamningum felst einnig í því að sveitarfélög muni stuðla að auknu framboði á húsnæðismarkaði.

Á málefnasviði 08, Sveitarfélög og byggðamál, felast breytingar fyrst og fremst í auknum framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samræmi við tekjuáætlun auk niðurfellingar á tímabundnum verkefnum. Samtals er gert ráð fyrir að fjárheimildir aukist um 3,6 milljarða kr. á tímabilinu. Hér er þó vert að nefna að ein þeirra aðgerða sem gripið verður til í tengslum við kjarasamninga er að útfæra leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar á árunum 2024–2027. Gert er ráð fyrir að ríkið standi straum af þremur fjórðu hlutum þess kostnaðar sem fellur til hjá foreldrum við skólamáltíðir í grunnskólum. Ávinningur af aðgerðinni felst í jöfnun lífskjara en ókeypis gjaldfrjálsar skólamáltíðir geta skipt sköpum fyrir börn af fátækum heimilum og er aðgerðinni því ætlað að auka jöfnuð meðal barna óháð fjárhag foreldra og styðja markmið stjórnvalda um að draga úr fátækt meðal barna.

Stuðlað er að sameiningu sveitarfélaga með ákvæði sveitarstjórnarlaga um þúsund íbúa lágmark og fjárhagslegum stuðningi Jöfnunarsjóðs við sameiningarferli. Með sameiningu sveitarfélaga skapast tækifæri til að endurskoða ábyrgðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga til að efla nærþjónustu og eyða gráum svæðum þar sem valdsvið og ábyrgð skarast. Með farsælum sameiningum verða til öflugri sveitarfélög sem veita betri og skilvirkari þjónustu við íbúa.

Virðulegur forseti. Ég vísa að öðru leyti til greinargerða þeirra sem fylgja hverju málefni fyrir sig.